Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

HIN ÞÖGLU MÓTMÆLI.

silent protest

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Landflótti hófst við fall bankanna og enn flýr fólk land af fullum þunga þrátt fyrir norrænu velferðarstjórnina.  Heilbrigðisstarfsmenn og þar með taldir læknar flýja í stríðum straumum og hefur talan nú SJÖ-faldast.  Og ástæðurnar eru lág laun miðað við norðurlöndin og önnur vestræn lönd, slæm vinnuaðstaða, geysilegt vinnuálag. 

Í frétt í Pressunni í nóvember í fyrra:

Læknasamtök skilja hvorki upp né niður í því hvers vegna ráðamenn hlusta ekki á viðvaranir um læknaflótta á Íslandi. Læknaskortur er yfirvofandi.


Í frétt í Svipunni frá september í fyrra:

Svipan átti samtal við lækni nýlega sem lýsti því að meira og minna allir læknar undir 55 ára aldri séu að leita sér að starfi erlendis. Sjálfur er hann að velja sér starf erlendis og veit persónulega af sérfræðingum, yfirlæknum og öðrum, meðal annars læknar á bráðamóttöku, sem eru aðeins að vinna uppsagnarfrestinn. Það eru hreinlega allir að leita sér að starfi annarsstaðar, pakka saman og fara, segir hann.
Eftir dóm hæstaréttar í lánamálum er engin önnur leið fyrir þetta fólk, það er ekki velkomið á Íslandi, hér er ekki hægt að koma sér fyrir með fjölskyldu. “Velferðarstjórnin” virðist enga grein gera sér fyrir því hvílík blóðtaka það er að hirða allar eigur af þeirri kynslóð sem átti að taka við framtíð landsins. Þessi kynslóð fer og kemur aldrei aftur.
En er það ekki einmitt það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vill?


Jú, ætli það ekki?  Engan skildi undra.  En hvað finnst stjórnvöldum um landflóttann?  Hvað finnst ICESAVE-STJÓRNINNI?  Svaraði ekki Steingrímur bara að það fæddust alltaf nýir Íslendingar?  Er það þá í lagi að þúsundir á þúsundir ofan flýi föðurlandið bara ef það fæðast enn nýir Íslendingar?  Í það minnsta ekki ef færri koma til baka en fóru. 

Færeyingar töpuðu stórum hluta landsmanna sinna við svipaða erfiðleika og fæstir komu aftur.  Grænlendingar líka.  Oftast er það unga fólkið sem flýr.  Ætlum við að missa allt unga fólkið okkar úr landi?

Ekkert batna lífskjörin, skuldirnar rísa upp í himinhvolfið, enn missir fólk heimilin og vinnuna og fjölskyldur flosna upp.  Þó nokkrir hafa framið sjálfsvíg í örvæntingu.  

En þögul mótmæli fjöldans eru gríðarlega sterkt afl sem við getum notað á ríkisstjórn sem skilur ekkert og vill ekkert nema evru og ICESAVE.  Og miklu öflugri en ofbeldið og skrílslætin gegn saklausri lögreglu sem hafa of oft verið og hávaðinn og öskrin.  Læti fæla fólk í burtu frekar en hitt og ég hef verið að segja það.  Stjórnvöld neyðast til að taka okkur alvarlega með mætti fjöldans. 

Svona hafa Bandaríkjamenn lengi mótmælt á götum úti og náð langt, enda kæmust þeir ekkert upp með nein skrílslæti á almannafæri og yrði vikið af lögreglu.  Og mesta furða hvað íslenskir lögreglumenn eru vægir, standandi þarna í grjótregninu, enda nánast óvopnaðir og mikið undirmannaðir og illa verndaðir af hálfu stjórnvalda eins og sæmir. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.