GUÐLEG REFSING?

            Alain Lipietz.

ÍSLENDINGAR SKULDA EKKERT: Alain Lipietz.

 

Á sama tíma ætluðu tvær aðrar evrópskar þjóðir, Bretar og Hollendingar, að krefjast þess að umræddar skuldir yrðu greiddar. Evrópskir fjölmiðlar (ekki síst þeir hægrisinnuðu, sem og viðskipta- og fjármálamiðlarnir) lýstu vanþóknun sinni þegar þeir áttuðu sig á því hve fáránlegar kröfur ríkisstjórna landanna tveggja eru. - - - - -

Skuld Icesave er ekki skuld sem hið opinbera stofnaði til heldur einkaaðilar. Hvað gerðist eiginlega? Þegar þetta litla fiskimannasamfélag – sem er álíka fjölmennt og meðalstór borg í Bretlandi - gerðist aðili að EES, hófu menn að losa höft á fjármálastarfsemi. Fámennur hópur frammámanna, bankamanna og hægrisinnaðra stjórnmálamanna notfærði sér miskunnarlaust þessa nýju stöðu. Settur var saman afar rýr lagabálkur sem gerði bönkunum kleift að hefja starfsemi á alþjóðavísu. Starfsemi þeirra tútnaði út og varð á skömmum tíma meira en áttföld þjóðarframleiðsla Íslands.

Í reynd fóru 90% af starfsemi íslensku bankanna fram erlendis, mest í Bretlandi og Hollandi. Til þess að opna útibú í löndum Evrópusambandsins urðu íslensku bankarnir að uppfylla skilyrði tilskipunar Evrópusambandsins 94/19/ EC þar sem sérhvert land er skyldað til að koma á fót „innistæðutryggingakerfi“.

Það er tryggingasjóður í heimalandinu, sem fjármagnaður er með hluta þeirra fjármuna sem lagðir eru inn á reikninga viðkomandi fjármálafyrirtækis og er ætlað að tryggja innistæður sem nemur 20000 evrum. Íslenski innistæðutryggingasjóðurinn tryggir ekki nema lítinn hluta af þessum innlánum bankanna, en menn mátu það svo að ólíklegt væri að eignir þeirra allra gufuðu upp samtímis.

Var íslenski innistæðutryggingasjóðurinn ef til vill mjög veikburða? Var eftirlitið með honum ef til vill sérstaklega lélegt? Richard Portes, forseti Royal Economic Society var ekki þeirrar skoðunar. Hann skrifaði í opinberri skýrslu árið 2007 : «The institutional and regulatory framework appears highly advanced and stable. Iceland fully implements the directives of the European Union’s Financial Services Action Plan (unlike some EU member states)».

Þetta var «well informed common wisdom», hin vel upplýsta almenna viska fjármálaheimsins, greining sem einn glæsilegasti fulltrúi hans, Breti sem orðaður hefur verið við Nóbelsverðlaunin, bauð almenningi uppá. - - - - -

Ísland brást við bankakreppunni eins og önnur ríki og var raunar með þeim fyrstu. Var innistæðutryggingasjóðurinn þar of veikburða til að geta tryggt innistæðurnar? Íslenska ríkisstjórnin hækkaði strax ábyrgðina gagnvart sparifjáreigendum. En hún hafði ekki sama bolmagn og stóru þjóðirnar til að lána innlendum bönkunum gríðarlegar upphæðir til að bjarga þeim.

Þá greip breska ríkisstjórnin til sinna ráða og gerði tvennt í einu: Hún gerði eignir íslensku fjármálafyrirtækjanna upptækar og bauð þeim Bretum sem áttu innistæður í Icesave tryggingu. Sama gerði ríkisstjórn Hollands. Bar þessum þremur ríkisstjórnum einhver lagaleg skylda til að hækka innistæðutrygginguna upp fyrir þá upphæð sem innistæðutryggingasjóðurinn réð við að greiða þeim sem lögðu inn á reikninga hjá Icesave?

Tilskipun Evrópusambandsins sem fjallar um þetta efni (94/19/EC1) er alveg afdráttarlaus um þetta atriði: Svarið er Nei! „Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innistæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum...“

Ég var eftirlitsaðili, svokallaður „shadow reporter“ fyrir þingflokk Græningja á Evrópuþinginu, í bæði skiptin sem breytingar voru gerðar á tilskipun 94/19/EC. Í þeirri vinnu kom aldrei til greina að endurskoða það grundvallaratriði að opinberir aðilar skuli ekki gangast í ábyrgð fyrir skuldir einkaaðila.

Ríkisstjórnir Íslands, Bretlands og Hollands höfðu auðvitað fullan rétt til að bæta það sem uppá vantaði til að innistæðutryggingasjóðirnir á hverjum stað nægðu. Þegar kreppan skall á var það jafnvel skylda þeirra að gera það, koma þannig í veg fyrir ólgu í þjóðfélaginu og viðhalda efnahagslegum og þjóðfélagslegum stöðugleika innanlands. En það var stjórnvaldsákvörðun sem tekin var með lýðræðislegum hætti í hverju landi fyrir sig.

En ríkisstjórnir Bretlands og Hollands gengu jafnvel enn lengra. Þær ákváðu að nota opinbert fé til að endurgreiða þeim íbúum sínum, sem lagt höfðu inná Icesave, áætlað tap „þeirra“. Þetta var mun meira fé en það sem hægt var að greiða úr íslenska innistæðutryggingasjóðnum (nokkuð sem þeim var heimilt og þeim bar sennilega skylda til sbr. það sem sagt er að ofan).

Að þessu loknu gerðu ríkisstjórnir Bretlands og Hollands þá kröfu á hendur íslensku ríkisstjórninni, að hún endurgreiddi þeim það sem þær höfðu greitt. Greitt sínum eigin íbúum, ekki Íslendingum! Þær ætluðu með öðrum orðum að breyta þessum einkaskuldum Icesave í opinberar skuldir íslensku þjóðarinnar. - - - - -
Í Suður-Ameríku er talað um „peonaje“: smábóndann sem skuldar auðugum landeiganda fé allt sitt líf og er í rauninni haldið í ánauð, svipað og tíðkaðist á miðöldum. Þetta er ástæðan fyrir því að Íslendingar rísa upp í fullum rétti. Og þetta er ástæðan fyrir því að menn fyllast vanþóknun í Evrópu. En burtséð frá tilfinningalegum viðbrögðum verður að minna á að slík krafa á sér nákvæmlega enga lagastoð, eins og dæmin sanna: Ríki þurfa ekki að standa skil á neinu, nema að „koma á fót og samþykkja innistæðutryggingasjóð“. - - - - -

Fram hefur komið að hinar „dyggðugu og varkáru“ ríkisstjórnir Breta og Hollendinga hafi á sínum tíma haft ákveðnar efasemdir um Icesave og talið að innistæður íbúa í sínum löndum væru betur tryggðar hjá þeim en á Íslandi. Spurningin er, hvort þeim var heimilt að bregðast við? Hvað var þeim í rauninni heimilt að gera, sem „gistiríki“ Icesave? Svarið er skýrt. Tilskipun 94/19 og „Viðauki II“ fjallar beinlínis um þetta atriði: „Kerfi gistiríkisins hefur rétt til þess að láta útibúin greiða framlag vegna bótagreiðslna og skal í því sambandi miðað við þá tryggingu sem kerfi heimaríkisins veitir. Til að auðvelda innheimtu slíks framlags hefur kerfi gistiríkisins rétt til að líta svo á að trygging þess takmarkist ætíð við þá tryggingu sem það veitir umfram trygginguna sem heimaríkið veitir, óháð því hvort heimaríkið greiði í reynd viðbótarbætur fyrir innlánið sem er ótiltækt á yfirráðasvæði gistiríkisins.“ Í stuttu máli getur gistiríkið boðið upp á aukatryggingu og krafist þess að útibú í gistilandinu greiði gjöld þar til viðbótar þeim gjöldum sem greidd eru í landinu þar sem bankinn er með höfuðstöðvar sínar.

Á árunum 2001-2002 tók ég saman skýrslu um tilskipunina „Reglur um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum.“ Þar kom fram skilningur sem Evrópuþingið gerði að sínum og nefnist „meginreglan um gistilandið“. Þar er nánar skilgreint að þegar um alþjóðlega fyrirtækjasamsteypu er að ræða bera yfirvöld landsins þar sem meginumsvifin (ekki móðurfélagið) er að finna, sjálfkrafa ábyrgð á eftirlitinu. Í tilfelli Icesave var það Bretland, sem gerði rétt í því að endurgreiða þeim sem höfðu lagt fé inn í bankann, en gerði rangt með því að snúast síðan gegn Íslandi.

Margir Íslendingar og fulltrúar þeirra virðast haldnir barnalegri þrá, „löngun til að borga“. En mig grunar að hér sé um samviskubit að ræða: Eins og þetta sé guðleg refsing eftir áralanga trú á skjótfenginn gróða. Ég segi því að vel yfirveguðu máli við þessa dugmiklu og hugrökku þjóð: Þið berið hvorki lagalega ábyrgð á þeirri siðspillingu sem nú hrjáir fjármálakerfi heimsins, né heldur eruð siðferðilega sek um neitt í því sem fór úrskeiðis.

Eftir Alain Lipietz.

Höfundur er hagfræðingur og fyrrverandi þingmaður á Evrópuþinginu.

 

ICELANDERS OWE NOTHING: Alain Lipietz.


ÍSLENDINGAR SKULDA EKKERT: Alain_Lipietz.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

E.S.: Friðrik Rafnsson þýddi ´governments´ rangt og gerir merkingu Alain Lipietz brenglaða, en hann meinti ´ríkisstjórnir´, ekki þjóðir:  Á sama tíma ætluðu tvær aðrar evrópskar þjóðir, - - -

Elle_, 3.3.2011 kl. 22:01

2 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ég hef hlustað á þennan kall og hann virpist sannarlega vita hvað hann talar um. Málið er að allt fjármálakerfið býður upp á spillingu og tóma þvælu. Ekki bara á Íslandi, heldur um allan heim.

Mér lýst vel á t.d. hugmyndir Jack Fresco um að það þarf að stefna að peningalausu kerfi. Peningar er ekkert annað enn samskipti og neikvæði hluti þess að það gefur neikvæða eigendahugmynd sem þarf að laga.

Óskar Arnórsson, 6.3.2011 kl. 14:13

3 Smámynd: Elle_

Óskar, ég þekki ekki til mannsins sem þú nefndir.  Lilja Mósesdóttir hefur núna víst stungið upp á nýjum íslenskum gjaldmiðli. 

Og nú er nákvæmlega heilt ár síðan við kolfelldum ICESAVE 2.

Elle_, 6.3.2011 kl. 23:00

4 Smámynd: Júlíus Björnsson

d) kerfið gestgjafa Meðlima-Ríkisins getur heimtað gjald af útibúunum fyrir uppfyllingar greiðslutryggingu á viðeigandi grunni sem tekur með í reikning trygginga fjármagnaðar af kerfi uppruna Meðlima-Ríkisins. Til að auðvelda innheimtu gjaldsins, getur kerfi gestgjafa Meðlima-Ríkisins botnað á tilgátunni hver verði þess skuldbinding, í öllum tilfellum, sem takmarkast við mismuninn milli tryggingarinnar sem það býður upp á og þeirrar sem er sem er í boði af uppruna Meðlima-Ríkinu, óháð spursmálinu ef uppruna Meðlima-Ríkið greiðir út raunverulega bót vegna innlánanna í haldi[vörslu] á dómsvaldssvæði gestgjafa Meðlima-Ríkisins.

Þetta segir að UK gat tekið gjald fyrir mismuninum ef bæturnar eru hærri í UK.

Ríkisjóð bætti innstæður hér með því að færa reikninganna í nýja Banka. Ríkisjóður á líka kröfu skilanefnd LB fyrir sína þegna eins og UK fyrir sína.

Júlíus Björnsson, 10.3.2011 kl. 07:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband